Strætó hefur tekið ákvörðun um að draga til baka grímuskyldu í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu eftir nánara samtal við sóttvarnayfirvöld. Eins og fram kom í fréttum í gær ákvað Strætó að gera það skylt að farþegar bæru grímur fyrir vitum, þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld teldu það ekki nauðsyn.
Strætó tilkynnti í gær eftir að minnisblað sóttvarnalæknis í tengslum við almenningssamgöngur var birt að grímuskylda myndi taka gildi í strætisvögnum á hádegi í dag. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að grímuskyldan ætti ekki við um Strætó.
Forsvarsmenn tilkynntu í morgun að grímuskyldunni yrði haldið til streitu þrátt fyrir að fyrirtækið væri ekki skyldugt til þess, miðað við ummæli frá almannavörnum, þar sem ekki er talið hægt að viðhalda tveggja metra fjarlægð milli notenda.
Strætó biður farþega þess í stað að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:
- Þegar ekki er unnt að viðhalda fjarlægðartakmörkunum í fjölmenni, svo sem á háannatíma í umferðinni, er fólki ráðlagt að hafa andlitsgrímur á sér og setja þær upp ef fjölmennt verður í strætisvögnum.
- Þá er mælst til að fólk í áhættuhópum setji upp andlitsgrímur um borð í vögnum.
- Grímuskylda verður enn til staðar í vögnum Strætó sem sinna landsbyggðarakstri.
Þá biðlar Strætó til viðskiptavina sinna að huga vel að hreinlæti, þvo sér um hendur og reyna eftir fremsta megni að virða fjarlægðartakmarkanir um borð í strætisvögnum.