Það var heldur fámennt við óformlega setningu þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum í dag. Venjulega væru þúsundir manna komnar til Eyja á föstudeginum fyrir þjóðhátíð en nú er fátt um gesti.
Lúðrasveit Vestmannaeyja var þó ekki á því að sleppa hefðbundnum lúðrablæstri í upphafi þjóðhátíðar í rigningunni í dag þótt formlega verði enginn hátíð haldin í bænum að þessu sinni. En Jarl Sigurgeirsson stjórnandi sveitarinnar segir ekki hægt að sleppa þjóðhátíð frekar en einum degi vikunnar.
„Þjóðhátíðin kemur og Þjóðhátíðin er eins og jólin, þetta er bara á sínum stað. En svo er bara misjafnt hversu vegleg hátíðarhöldin eru,“ sagði Jarl Sigurgeirsson, stjórnandi lúðrasveitarinnar í dag. „Ég held að í hjörtum Eyjamanna sé alveg örugglega Þjóðhátíð byrjuð.“