Fjallið Sinabung á Súmötru hefur gosið tvívegis á síðastliðnum þremur dögum, nú síðast í morgun. Töluverð eldsumbrot og virkni hafa verið í fjallinu í rúmt ár og hafa stjórnvöld í Indónesíu varað íbúa og gesti svæðisins við mögulegri hraunelfi.
Talið er að gosmökkurinn sem Sinabung gaf frá sér í morgun hafi stigið fimm kílómetra upp til himins og segja sjónarvottar að umbrotunum hafi fylgt gríðarlegur hávaði. Einn sjónarvottur segir þannig í samtali við Reuters að hávaðinn hafi varað í um 30 sekúndur og minnt á öfluga þrumu.
Íbúum svæðisins hefur verið ráðlagt að halda sig í um þriggja kílómetra fjarlægð frá fjallinu, sem stendur á norðanverðri Súmötru. Að sama skapi hafa þeir verið hvattir til að bera grímur til að minnka mögulega hættu af öskufalli. Engin slys hafa orðið á fólki að sögn þarlendra yfirvalda og flugsamgöngur eru enn með nokkuð eðlilegum hætti.
Þrátt fyrir að mikil eldvirkni sé í kringum Sinabung hafði það verið í dvala öldum saman áður en það gaus aftur árið 2010. Síðan þá hefur fjallið reglulega látið á sér kræla, ekki síst á liðnu ári. Þannig gaus það síðast á laugardag áður en það gaus aftur í morgun. Gosin eru alla jafna stutt en þó öflug öskugos.