Líbanska þingið hefur framlengt neyðarástandið landinu sem felur meðal annars í sér að herinn fær nú aukin völd. Ástandið í Líbanon er spennuþrungið eftir sprenginguna í höfuðborginni Beirút í síðustu viku sem hefur meðal annars leitt til afsagnar ríkisstjórnar landsins.
Samþykkt þingsins felur í sér takmörkun á fjölmiðla- og tjáningarfrelsi í landinu sem og rétti fólks til að koma saman. Sömuleiðis er hernum nú heimilt að halda inn á heimili fólks sem talið er ógna öryggi og þá skal málarekstur í dómsmálum nú fara fram innan veggja herdómstóla.
Neyðarástandi var þegar lýst yfir í landinu þann 5. ágúst síðastliðinn í kjölfar hinnar gríðarmiklu sprengingar á hafnarsvæði Beirútborgar. Hefur því ástandi nú verið framlengt.
Að minnsta kosti 171 maður fórst og um sex þúsund manns slösuðust í sprengingunni, og er áætlað að um 300 þúsund manns hafi þar misst heimili sín.
Ný ríkisstjórn verði mynduð hið fyrsta
Mikil mótmæli hafa verið á götum Beirút og fleiri borga síðustu daga sem hafa beinst að stjórnvöldum. Hafa þau verið sökuð um spillingu og vanrækslu sem leiddi til að aðstæður hafi skapast sem ollu þessari miklu sprengingu. Óeirðalögregla hefur bæði beitt táragasi og gúmmíkúlum í samskiptum sínum við mótmælendur.
Ríkisstjórn landsins ákvað fyrr í vikunni að segja af sér, en í morgun kom þingið saman í fyrsta sinn eftir sprenginguna. Hvatti forseti þingsins til þess að ný ríkisstjórn verði mynduð við fyrsta tækifæri.