Norski olíusjóðurinn hefur aldrei í sögunni verið jafn stór og aldrei vaxið jafn mikið eins og á nýliðnu ári. Heildareignir sjóðsins námu í loks árs um 10.500 milljörðum norskra króna, samkvæmt frétt norska vefmiðilsins e24. Fjárhæðin jafngildir nærri 150 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Sjóðurinn óx um 1.794 milljarða norskra króna á árinu, sem jafngildir 25 þúsund milljörðum íslenskra króna. Á hvern hinna 5,3 milljóna íbúa Noregs þýðir þetta verðmætaaukningu upp á 335 þúsund norskar krónur, eða sem nemur nærri 4,7 milljónum íslenskra. Virðisaukinn á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Noregi á síðasta ári jafngildir 18,7 milljónum íslenskra króna.
Norski olíusjóðurinn er stærsti fjárfestingarsjóður í ríkiseigu í heiminum. Væri heildareignum sjóðsins deilt niður á íbúa Noregs kæmu um 1,9 milljónir norskra króna í hlut hvers einstaklings, jafngildi 26,5 milljóna íslenskra.
Olíusjóðurinn var stofnaður af norska ríkinu árið 1990 til að ávaxta hagnaðinn af olíulindum Norðmanna. Sjóðurinn hefur nýtt olíugróðann til að fjárfesta í verðbréfum um allan heim og á núna hlutabréf í yfir níuþúsund fyrirtækjum í 73 löndum.
Við fjárfestingar fylgir sjóðurinn siðareglum, sem hafa meðal annars leitt til þess að hann hefur losað sig við hlutabréf fyrirtækja í tóbaksiðnaði og kjarnorkuvopnaframleiðslu en einnig fyrirtækja sem tengjast mannréttindabrotum og alvarlegum umhverfisspjöllum.
