José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, hefur gagnrýnt ítalska félagið Inter Milan vegna þess hve seint þeir virðast ætla að næla í hinn danska Christian Eriksen. Aðeins eru fimm dagar eftir af félagaskiptaglugganum og finnst Mourinho kaupin vera ganga í gegn of seint.
„Það er ekki hægt að kenna Tottenham um þessar aðstæður. Svona lagað á ekki að vera gerast 25. janúar,“ sagði Mourinho áður en hann hrósaði miðjumanninum danska.
„Frá því ég kom til liðsins hefur Eriksen hagað sér eins og atvinnumaður á að haga sér. Framkoma hans hefur verið til fyrirmyndar. En að vera í svona aðstæðum þann 25. janúar er ekki gaman.“
Mourinho staðfesti jafnframt að Tottenham myndi kaupa Giovani lo Celso af Real Betis áður en félagaskiptaglugginn myndi loka en sá hefur verið á láni hjá Tottenham frá því í haust.
Eriksen var ekki í leikmannahópi Tottenham sem gerði 1-1 jafntefli gegn Southampton í FA bikarnum í gær.