Lífið

Ferðast ekki til Hollands fyrir póstkortið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fulltrúi Ísraels í Eurovision í ár, Eden Alene.
Fulltrúi Ísraels í Eurovision í ár, Eden Alene. Ebu/Ran Yehezkel
Fulltrúi Ísraels í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár, söngkonan Eden Alene, mun ekki ferðast til Hollands í aðdraganda keppninnar vegna kórónuveirunnar.

Hefð er fyrir því að keppendur taki upp hið svokallaða „póstkort,“ myndbandsinnslagið sem spilað er áður en þeir stíga á svið í Eurovision, í landinu sem hýsir keppnina hverju sinni. Myndbandið er þannig í aðra röndina kynning á keppandanum en um leið auglýsing fyrir gestgjafann.

Formaður ísraelsku sendinefndarinnar greindi frá ákvörðuninni á mánudag, að því er fram kemur í ísraelskum miðlum. Þar segir jafnframt að unnið sé að því að finna aðra útfærslu þannig að ísraelska framlagið stingi ekki í stúf við aðra keppendur.

Sendinefndirnar funduðu í upphafi vikunnar í Rotterdam og lögðu línurnar fyrir komandi Eurovision-keppni sem hefst eftir rétt rúma tvo mánuði. Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar héldu nokkrar þjóðir sig heima en fylgdust þess í stað með gangi mála í gegnum fjarfundabúnað; eins og Grikkir, Svíar og fyrrnefndir Ísraelsmenn. Felix Bergsson, formaður íslensku sendinefndirnar, lét sig þó ekki vanta.

Norðmanninum Jon Ola Sand, sem lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Eurovision eftir keppnina í ár, var einnig meinuð þátttaka í sendinefndafundinum. Hann, eins og aðrir starfsmenn EBU, er í ferðabanni út þessa viku hið minnsta.

Stjórnvöld í Ísrael greindu frá því í upphafi vikunnar að öll þau sem koma til landsins, jafnt Ísraelsmenn sem ferðalangar, munu þurfa að undirgangast tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Nú hafa á áttunda tug smittilfella komið upp í landinu.

Þó svo að víða um Evrópu sé búið að setja á samkomubann vegna útbreiðslu veirunnar hefur engin slík ákvörðun verið tekin í tengslum við Eurovision. EBU hefur þó sagst fylgjast náið með stöðunni og hafi nokkrar útfærslur á keppninni til skoðunar. Þau hafa þó ekki gefið upp hvaða sviðmyndir séu inni í myndinni en spekúlöntum þykir líklegast að ef allt fer á versta veg verði áhorfendalausa útfærsla Dana fyrir valinu.

Ísraelar stíga á svið á fyrra undankvöldinu, þann 12. maí. Hér að ofan má heyra lag þeirra í ár; Feker Libi í flutningi Eden Alene. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.