Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að þó heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar sé enn í vexti hafi hægst á vextinum og dauðsföllum fækkað, víðast hvar í heiminum. Enn sé mikill vöxtur í suðaustur Asíu og í austurhluta Miðjarðarhafsins.
Norður- og Suður-Ameríka eru enn þau svæði heimsins sem hafa orðið hvað verst út. Um helmingur þeirra sem smituðust á heimsvísu á undanfarinni viku eru frá því svæði og 62 prósent þeirra tæplega 40 þúsund sem dóu á vikunni.
Alls hafa rúmlega 23,6 milljónir smitast af Covid-19 og 813.789 hafa dáið, samkvæmt talningu Johns Hopkins háskólans, sem byggir á opinberum tölum.
Í vikunni sem lauk 23. ágúst voru ný smitaðir rúmlega 1,7 milljón. Það samsvarar um fjögurra prósenta minnkun á milli vikna. Dauðsföllum fjölgaði um tólf prósent, samkvæmt frétt Reuters.
Í suðaustur Asíu fjölgaði nýsmituðum þó um 28 prósent á milli vikna og dauðsföllum um 15 prósent. Í austurhluta Miðjarðarhafsins fjölgaði smituðum um fjögur prósent. Dauðsföllum fór þó fækkandi, eins og undanfarnar sex vikur.
Undanfarnar vikur hefur smituðum farið mjög fjölgandi í Evrópu. Þessa vikuna var fjölgunin þó einungis eitt prósent. Dauðsföllum hefur farið fækkandi þar.