Þrátt fyrir að bóluefni gegn Covid-19 sjúkdómnum, sem virkar vel, muni koma á markað á næstu mánuðum mun það ekki leiða til þess að lífið falli í sama horf og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Þetta segja vísindamenn sem unnið hafa að einu slíku bóluefni.
Um 200 bóluefni gegn veirunni eru nú í þróun og átta þeirra á lokastigi prófana og er jafnan talað um bóluefni sem lausn allra vandamála sem faraldrinum hafa fylgt.
Í skýrslu, sem fjöldi vísindamanna á vegum Royal Society vann, segir að horfa þurfi á áhrif bóluefnis og hvenær þau komi fram á raunsæjan hátt. Aflétta þurfi takmörkunum hægt og rólega, þar sem það gæti tekið allt að ár að dreifa bóluefninu til allra hópa samfélagsins.
Fiona Culley, læknir við bresku hjarta- og lungnastofnunina við Imperial háskólann í Lundúnum segir að þó að vonir séu um að bóluefni muni vinna bug á faraldrinum sé þróun slíks efnis hverful og margar hindranir geti verið framundan.
Fram kemur í skýrslu Royal Society að þó svo að bóluefni sem virkaði kæmi á markað á þessu ári tæki það marga mánuði að bólusetja alla hópa samfélagsins. „Við erum að taka um sex mánuði, níu mánuði… ár,“ sagði Nilay Shah, prófessor við efnaverkfræðideild Imperial háskólans í Lundúnum.
Þá séu sum bóluefnin sem eru í þróun af gerð RNA bóluefna og hafa slík bóluefni aldrei verið fjöldaframleidd áður. Þá hafa spurningar vaknað um hráefni bæði bóluefnisins sjálfs og hvernig eigi að geyma það, hvernig geymslupláss fyrir bóluefni ríki eru búin, þar sem geyma þarf bóluefni við áttatíu gráðu frost.