Framleiðsla á olíu og gasi gæti dregist saman um allt að fjórðung vegna verkfalls starfsmanna í olíuiðnaði í Noregi. Heimsmarkaðsverð á olíu gæti hækkað fyrir vikið. Norska ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa inn í verkfallið eins og sakir standa.
Viðræður verkalýðsfélags olíuverkamanna og Norska olíu- og gassambandsins fóru út um þúfur 30. september. Sex olíu- og gasborpöllum var lokað vegna verkfallsaðgerða á mánudag. Framleiðslan dróst þá saman um 8% eða um 330.000 tunnur af olíu á dag.
Tillögur gengu á milli deiluaðila í gær og stóð til að ræða þær á fundum í dag. Audun Ingvartsen, leiðtogi verkalýðsfélagsins Lederne, segir enn mögulega að ná annað hvort skammtíma- eða langtímalausn.
„Ef enginn samningur næst herðum við verkfallsaðgerðirnar auðvitað,“ segir hann við Reuters-fréttastofuna.
Norska ríkisstjórnin hefur sagt verkfallsaðgerðirnar lögmætar en að hún fylgist grannt með þróun mála. Verkfall olíustarfsmanna var stöðvað með lagasetningu árið 2012. Þá hafði verkfall staðið í sextán daga og útlit var fyrir að öll olíu- og gasframleiðsla stöðvaðist.
Olíuverkamennirnir krefjast þess að starfsmenn í stjórnstöðum á landi fái sömu laun og vinnuaðstæður og þeir sem starfa á olíuborpöllum á hafi úti. Þá krefjast þeir meiri launahækkana en olíufyrirtækin eru tilbúin að bjóða.
Útlit er nú fyrir að fleiri olíu- og gasborpöllum verði lokað vegna verkfallsins í dag og í næstu viku. Alls gæti framleiðslan þá dregist saman um hátt í milljón tunnur á dag.