Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt tilnefningu Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi Barrett eftir að Ruth Bader Ginsburg dómari lést í síðasta mánuði.
52 þingmenn repúblikana greiddu atkvæði með tilnefningu Barrett en allir þingmenn demókrata greiddu atkvæði gegn tilnefningunni. Þetta er í fyrsta sinn í 151 ár sem dómari er samþykktur af þinginu í Hæstarétt Bandaríkjanna án þess að fá eitt einasta atkvæði frá minnihlutaflokki í öldungadeildinni.
Allir þingmenn repúblikana, utan Susan Collins þingmanni frá Maine, greiddu atkvæði með tilnefningu hinnar 48 ára Barrett sem verður 115. dómarinn til þess að sitja í Hæstarétti Bandaríkjanna og aðeins fimmta konan.
Úrslitin þýða að sex dómarar af níu við hæstarétt verða íhaldssamir og er því búist við sveiflu í þátt í niðurstöðum réttarins í deilumálum. Hæstiréttur Bandaríkjanna er afar áhrifamikill og hefur áður skorið úr um deilumál á borð við samkynja hjónabönd árið 2015 og réttinn til þungunarrofs árið 1973.
Skipað er ævilangt í réttinn og er Barrett þriðji hæstaréttardómarinn sem Trump-stjórnin fær samþykktan. Repúblikanar voru afar snöggir að ganga frá tilnefningu Barrett en aðeins eru sex vikur frá því að Ginsburg lést.