„Þetta gerðist bara og maður er svo sem ekki ennþá að átta sig á því almennilega hversu stórt þetta er,“ segir Elín Heiða Hlinadóttir, systir körfuboltakappans Tryggva Snæs Hlinasonar, um þann stall sem bróðir hennar er kominn á í atvinnumennsku á Spáni.
„Þetta er geggjuð saga einmitt og gerðist svo ótrúlega hratt allt saman,“ segir móðirin í Svartárkoti, Guðrún Tryggvadóttir.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 lýsir Tryggvi Snær ævintýrinu þegar hann á undraskömmum tíma fór frá því að vera sveitastrákur í Bárðardal í það að verða atvinnumaður í körfuknattleik í sterkustu deild Evrópu.
„Það var eitt markmið og það var að vera bóndi hérna,“ segir Tryggvi í viðtalinu sem tekið var á báti á Svartárvatni þar sem hann var að leggja silunganet með móður sinni í stuttu sumarfríi frá Spáni.
Þátturinn er endursýndur á Stöð 2 í dag, laugardag, kl. 14:35. Hér má sjá sjö mínútna myndskeið úr þættinum: