Flugleið þotunnar lá yfir Ísland á níunda tímanum í morgun. Hún kom yfir landið yfir Djúpavogi í stefnu til norðvesturs og flaug meðal annars yfir Eyjafirði og Hofsósi í 40 þúsund feta hæð.
Segja má að fjögurra hreyfla þotur séu eitt helsta fórnarlamb heimsfaraldurs covid-veirunnar. Flugfélög hafa unnvörpum nýtt tækifærið til að taka þær úr notkun, eftir því sem tveggja hreyfla-þotur hafa orðið langdrægari, enda mun hagkvæmari í rekstri. Þannig munu tveggja hreyfla Airbus A350 þotur leysa af A340 þotur SAS.

Drottning háloftanna síðustu hálfa öld, Boeing 747, er einnig óðum að hverfa sem farþegaþota. Þá er mikil óvissa um framtíð Airbus A380, stærstu farþegaþotu heims. Airbus hefur tilkynnt að framleiðslu hennar verði hætt á næsta ári, þótt aðeins séu þrettán ár frá því að hún hóf farþegaflug.
Fjögurra hreyfla flugvélar voru burðarás SAS-flotans í áratugi. Meðal slíkra véla í þjónustu félagsins í gegnum tíðina má nefna Douglas DC-4, DC-6, DC-7, DC-8, Convair 990, Boeing 747 auk Airbus A340.