Heilbrigðisráðuneytið greindi frá því fyrir hádegi að samkvæmt samningum áttu 21.000 skammtar að berast til landsins um áramót, en þeir verða um 10 þúsund. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram ekki fram ástæða þess að Íslendingar fái færri skammta í janúar en ráðgert var. Von er á 17.500 skömmtum til viðbótar í janúar og febrúar. Samanlagt eru það 27.500 skammtar sem á að duga fyrir 14.000 manns.
Samkvæmt svari Pfizer þá hafði fyrirtækið strax í nóvember greint frá því að það gæti ekki afhent alla þá skammta sem til stóð árið 2020. Áætlanir gerður ráð fyrir að Pfizer myndi afhenda 100 milljónir skammta í ár en vegna skorts á hráefni verður niðurstaðan 50 milljónir skammta.
Andy Widger, sem sér um samskipti við fjölmiðla í Evrópu fyrir Pfizer, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að ástæðurnar fyrir því að færri skammtar verða afhentir í ár séu nokkrar.
Aldrei hafi bóluefni verið þróað hraðar og því hafi verið erfitt að áætla hvað þyrfti mikið í fjöldaframleiðslu þess. Þá vekur hann athygli á því að klínískar rannsóknir hafi tekið lengri tíma en til stóð, sem varð til þess að athygli fyrirtækisins fór að mestu í að ljúka þeim.
Hann segir fyrirtækið þó fullvisst um að það muni ná að afhenda 1,3 milljarða skammta af bóluefninu við lok næsta árs.