Lífið

Ösku upprunalega „Scotty“ var smyglað í geimstöðina 2008

Samúel Karl Ólason skrifar
„Scotty“ ásamt öðrum úr áhfön Enterprise árið 2003. Frá vinstri: Nichelle Nichols (Ahura), William Shatner (Cpt. Kirk), James Doohan (Scotty) og Leonard Nimoy (Spock).
„Scotty“ ásamt öðrum úr áhfön Enterprise árið 2003. Frá vinstri: Nichelle Nichols (Ahura), William Shatner (Cpt. Kirk), James Doohan (Scotty) og Leonard Nimoy (Spock). Getty/Kevin Winter

Ösku leikarans James Doohan, sem var hvað þekktastur fyrir að leika Montgomery Scott í upprunalegu Star Trek sjónvarpsseríunni, var smyglað um borð í Alþjóðlegu geimstöðina árið 2008. Mjög fáir hafa vitað af því þar til nú.

Sunday Times sagði frá því á föstudaginn að Richard Garriott, einn fyrstu almennu borgaranna til að ferðast út í geim, laumaði ösku Doohan og mynd af honum með sér í með sér til geimstöðvarinnar og kom hann því fyrir undir gólfinu í Columbus-hluta geimstöðvarinnar.

Þeta gerði Garriott að ósk fjölskyldu Doohan en opinberri beiðni þeirra hafði verið hafnað. Doohan dó árið 2005, þá 85 ára gamall. Hann hafði óskað sér þess að komast um borð í geimstöðina.

Þó hann hafi ferðast mun lengra með Enterprise á árum sínum þar um borð hefur Doohan nú farið rúmlega 70 þúsund sinnum um jörðina. Það samsvarar um 2,7 milljörðum kílómetra.

Í samtali við Times segir Garriott að fjölskylda leikarans hafi verið hæstánægð en það hafi alltaf verið leiðinlegt að geta ekki talað um þetta. Nú telji þau að nægur tími sé liðinn svo það sé í lagi.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hluti af ösku Doohan er sendur út í geim. Árið 2008 skaut SpaceX smá ösku um borð í eldflaug sem bilaði þó snemma. Árið 2012 var það svo gert aftur en það flug heppnaðist betur, samkvæmt The Verge.

Hér er tíst sonar Doohan þar sem hann sýnir kort eins og það sem Garriott smyglaði um borð í geimstöðina. Auk þess að innihalda mynd af Doohan innihélt kortið einnig hluta af ösku hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.