Tólf þúsund skammtar af bóluefni Pfizer komu til landsins í dag, nákvæmlega tíu mánuðum eftir að fyrsti maðurinn greindist með veiruna hér á landi. Bóluefnið sem kom í dag nægir til að bólusetja alla íbúa öldrunarheimila auk framlínustarfsfólks í heilbrigðisstörfum.
Blöndun hefst snemma í fyrramálið
Nú síðdegis bárust svo fréttir af því að samningur Íslands um kaup á 80 þúsund skömmtun til viðbótar frá Pfizer verði undirritaður á morgun. Fyrri samningur Íslands við Pfizer kveður á um 170 þúsund skammta. Með þessu hefur Íslands tryggt sér skammta sem duga fyrir 125 þúsund manns.
Hafist verður handa við að blanda bóluefnið hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins snemma í fyrramálið. Bóluefninu verður svo dreift á hjúkrunarheimilin en búist er við því að 1.600 skjólstæðingar verði bólusettir næstu tvo daga. Þá verða um 770 starfsmenn og sjúklingar Landspítalans bólusettir á morgun og hinn.
Fjórir heilbrigðisstarfsmenn fyrstir
Fyrstu skammtar af bóluefninu verða gefnir klukkan níu í fyrramálið í húsakynnum landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að Katrínartúni 2.
Þar verða fjórir heilbrigðisstarfsmenn, allir úr forgangshópi 1 samkvæmt reglugerð, bólusettir. Ekki hefur komið fram hverjir fjórmenningarnir eru. Sýnt verður beint frá bólusetningunni, meðal annars hér á Vísi, en fyrirkomulagið verður með sama hætti og á upplýsingafundum; í gegnum Teams og streymi, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum.
Þá mun Landspítali hefja bólusetningar starfsfólks í matsal Skaftahlíðar 24 klukkan tíu. Síðar um daginn verður bólusett á Landakoti og Vífilsstöðum.
Þorleifur ríður á vaðið
Að lokinni bólusetningu klukkan níu mun Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefja bólusetningu á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð. Þar verða tuttugu heimilismenn bólusettir en sá fyrsti sem fær sprautu verður Þorleifur Hauksson, 63 ára vistmaður. Hann sagði í samtali við fréttastofu í dag að bólusetningin leggist vel í hann og að hann væri ekkert stressaður.
Þá verður upplýsingafundur almannavarna klukkan ellefu. Þar fara Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Alma Möller landlæknir yfir stöðu faraldursins hér á landi. Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mun einni ræða fyrirkomulag bólusetninga á fundinum.
Fylgst verður náið með framvindu dagsins í beinni útsendingu á Vísi.