Breikkun Reykjanesbrautar á ólokna kaflanum framhjá Straumsvík milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns er meðal þeirra verkefna í vegagerð sem fá flýtifé, samkvæmt stjórnartillögu um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag.
Reykjanesbrautin er inni í kafla um vegaframkvæmdir og hönnun, sem fær alls 1.860 milljónir króna, til viðbótar við gildandi áætlun, af 6.210 milljónum króna, sem verja á aukalega til samgönguframkvæmda.
Sjá einnig: Breikkun Reykjanesbrautar lokið á næstu fimm árum

Fimm önnur verkefni á Reykjavíkursvæðinu eru í þessum flokki; breikkun Suðurlandsvegar við Hádegismóa milli Bæjarháls og Vesturlandsvegar, breikkun Suðurlandsvegar meðfram Rauðhólum og Gunnarshólma, milli Fossvalla og Norðlingavaðs, og breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ, milli Langatanga og Hafravatnsvegar. Ennfremur hönnun og undirbúningur vegna útfærslu Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Suðurlandsvegi og hönnun og undirbúningur vegna breikkunar Reykjanesbrautar frá Fjarðarhrauni að Mjódd.
Þrjú verkefni utan suðvesturhornsins eru nefnd í þessum flokki; Snæfellsnesvegur um Skógarströnd, hringvegurinn efst á Holtavörðuheiði um Heiðarsporð, en þar er Biskupsbeygja, og loks endurbætur á þjóðveginum norðan Blönduóss í átt að Skagaströnd um Laxá og á Þverárfjallsvegi um Refasveit.

Til breikkunar einbreiðra brúa á að verja 700 milljónum króna en þær eru: Köldukvíslargil á Norðausturvegi, Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi, Botnsá í Tálknafirði, Bjarnadalsá í Önundarfirði, Núpsvötn, Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi og Skjálfandafljót á Hringvegi hjá Fosshóli við Goðafoss.
Til nýrra hringtorga, sem öll verða á Suðurlandi, á að verja 200 milljónum króna. Þau verða við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum.
Þá er óskipt framlag til tengivega upp á 1.000 milljónir króna. „Setja bundið slitlag á malarvegi um allt land. Fjárveiting dreifist um allt land í hlutfalli við þá tengivegi sem eftir eru á hverju svæði með malarslitlagi,“ segir í skýringum.
Þá er sömuleiðis óskipt viðbótarfé til viðhalds upp á 1.000 milljónir króna með svohljóðandi skýringu: „Ýmsar aðgerðir í viðhaldi á vegum sem dreifist um land allt. Viðbót við fjárveitingar skv. samgönguáætlun.“