Hinn 23 ára gamli Þorgeir Bjarki Davíðsson er genginn í raðir Vals frá HK. Mun hann leika með Val í Olís deild karla í handbolta á næstu leiktíð. Gildir samningur hans til tveggja ára.
Þorgeir Bjarki er hornamaður að upplagi og lék alla 20 leiki HK í Olís deild karla á nýafstaðinni leiktíð. Skoraði hann 47 mörk fyrir Kópavogsliðið sem endaði í næstneðsta sæti deildarinnar og mun því leika í næst efstu deild á næstu leiktíð.
Valur var hins vegar í efsta sæti Olís deildarinnar þegar kórónufaraldurinn skall á og í kjölfarið ákvað handknattleikssamband Íslands að aflýsa leiktíðinni.
Áður en Þorgeir hélt til HK var hann í herbúðum Fram en hann er uppalinn í Gróttu á Seltjarnarnesi. Þá hefur hann leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. Hann fær nú tækifæri til að láta ljós sitt skína í sterku Valsliðið á komandi leiktíð.
Þá tilkynnti Valur einnig að Þorgils Jón Svölu Baldursson hafi skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.