Hugmyndin að listanum kom eftir góða frammistöðu Vilhelms Poulsen í jafntefli Fram og Stjörnunnar á sunnudaginn. Færeyingurinn hefur staðið sig vel hjá Fram og fær fimmta sætið á lista Jóhanns Gunnars.
„Það var talað um að hann væri hornamaður sem gæti spilað skyttu en hann er bara frábær skytta. Hann er enn aðeins mistækur á eftir að verða drullugóður,“ sagði Jóhann Gunnar.
Í 4. sætinu er mentor Jóhanns Gunnars í handboltanum, sjálfur Hjálmar Vilhjálmsson. „Hann var umdeildur eftir að hann hætti í boltanum en ótrúlega góður náungi. Hann var grjótkastari og með stærstu læri sem ég veit um.“
Arnar Birkir Hálfdánsson fékk 3. sætið á lista Jóhanns Gunnars og Rúnar Kárason 2. sætið. Þeir leika báðir sem atvinnumenn erlendis í dag.
Val Jóhanns Gunnars á bestu hægri skyttu Fram á þessari öld kom svo mikið á óvart. Eða ekki. Hann setti nefnilega sjálfan sig í toppsætið.
„Þetta er bara faglegt mat,“ sagði Jóhann Gunnar og byrjaði svo að tala um sjálfan sig í þriðju persónu.
„Ástæðan fyrir því er að allir titlar sem unnust á þessu tímabili, sem eru tveir, þar var þessi leikmaður í hægri skyttunni. Hann var valinn bestur og var markahæstur nánast öll tímabilin. Hann var rosalega mikill félagsmaður og góður í klefanum. Þessi leikmaður er einn sá besti sem spilaði í íslensku deildinni.“
![](https://www.visir.is/i/C487DF2C41B7F32773C225CFF8F4FBE7306DA5C8DEA83EC9FCB775EF43034ADD_713x0.jpg)
Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.