Logi Pedro er gestur vikunnar í Einkalífinu. Eftir mikið og strangt tónleikaferðlag um alla Evrópu fór Logi að finna fyrir kvíða.
„Ég er alveg fullt kvíðinn í dag og oft. Ég tók lyf og gerði það í þrjú ár og hætti því síðan síðasta vor þegar Covid skall á og það var mjög áhugavert ferli. Ég hafði verið á lyfjum í þrjú ár og það hjálpaði mér rosalega mikið. Svo er komið eitthvað jafnvægi og það var gott að hætta, en líka langt ferli. Það tekur kannski hálft ár að hætta á svona lyfjum en ég er mjög ánægður með að ég gerði það,“ segir Logi Pedro sem varð að trappa sig niður af lyfjunum í nokkra mánuði.
„Þetta er allt gert eftir læknisráði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við getum talað rosalega opinskátt um kvíða og hvaða tól við notum. Fyrir mig er rosalega auðvelt að tala um þetta, ég fór á kvíða og þunglyndislyf og það hjálpaði mér fullt, en það var rosalega gott líka þegar ég hætti á þeim.“
Logi ræðir um kvíðann þegar 8 mínútur eru liðnar af þættinum.
Í þættinum hér að ofan ræðir Logi einnig um Retro Stefsson tímann, samband sitt við bróðir sinn, Unnstein Manúel, um rasisma á Íslandi og í heiminum öllum og hvernig sú þróun hefur verið, um barneignir, kærustuna sína, nýja þætti sem hann er að byrja með á Stöð 2 og margt fleira.