Knattspyrnu- og landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon og kærasta hans Móeiður Lárusdóttir hafa fest kaup á glæsilegu húsi Eiðs Smára Guðjohnsen og fyrrverandi eiginkonu hans Ragnhildar Sveinsdóttur.
Einbýlishúsið er staðsett við opið útivistarsvæði í Fossvoginum og er skráð 233.5 fermetrar á einni hæð. Húsið er með sex herbergjum, ásett verð var 150 milljónir þegar það var auglýst til sölu en fasteignamatið er tæpar 138 milljónir.
Móeiður og Hörður Björgvin eru í dag búsett í Moskvu þar sem Hörður spilar fótbolta með rússneska liðinu CSKA Moskvu.
Nýverið eignaðist parið sitt fyrsta barn, Matteu Móu en það ætti ekki að væsa um litlu fjölskylduna í þessu fallega húsi.


Hörður Björgvin slasaðist alvarlega í leik CSKA Moskva gegn Tambrov fyrir tveimur dögum þegar hann var borinn út af velli eftir að hafa slitið hásin. Óvíst er hvenær Hörður verður leikfær á ný en ljóst er að hann mun ekki spila meira með rússneska liðinu á þessari leiktíð.
Móeiður var fyrir stuttu í einlægu viðtali við Makamál á Vísi þar sem hún tjáði sig um upplifun sína af meðgöngu og fæðingu barns þeirra.
Viðtalið er hægt að sjá hér fyrir neðan.