Lífið

Ingó, Doctor Victor og Gummi Tóta með annað sumarlag

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ingó, Doctor Victor og Gummi Tóta með sumarlag.
Ingó, Doctor Victor og Gummi Tóta með sumarlag.

Tónlistarmaðurinn og læknirinn Victor Guðmundsson, betur þekktur sem Doctor Victor, gaf í dag út lagið Gírinn ásamt bræðrunum Ingó Veðurguð og Gumma Tóta, en það er annað lagið sem þeir félagar gefa út saman.

Fyrra lagið þeirra Sumargleðin sló í gegn árið 2019 og var sumarsmellur ársins.

„Gírinn er lag til að gíra íslensku þjóðina í gang,“ segir Victor. Lagið samdi hann ásamt vini sínum Elvari Páli Sigurðssyni fyrir þó nokkru síðan en það varð til þegar hann var að koma sér upp stúdíói heima á Íslandi eftir langt læknanám erlendis. 

Elvar Páll samdi lagið ásamt Victori.

Victor segir að lagið Gírinn hafi verið gert bara upp á gamnið til að byrja með en svo hafi fleiri og fleiri heyrt demó útgáfuna, m.a. Ingó og Gummi, og þeir hafi ákveðið að keyra á þetta og gefa út lagið.

„Ég var búinn að gera drög að gíruðum texta með Elvari Páli vini mínum og áður en ég vissi af vorum við bara mættir með bræðrunum í stúdíóið að vinna í þessu lagi. Síðustu mánuðir hafa náttúrulega verið erfiðir þannig að okkur langaði að gera lag til að gíra fólk í gang núna þegar útlitið er að verða bjartara,“ segir Victor.

Victor gerði nýlega samning við útgáfufyrirtækið Sony Music, en fyrr á þessu ári gaf Victor út lagið Older með fyrrverandi landsliðsmanninum Rúrik Gíslasyni og fyrir tveimur vikum gáfu þeir út rólegri útgáfu af laginu sem þeir tóku upp í Eldborg í Hörpu.

Framundan hjá Victor er fullt af meiri tónlist, en Gírinn er það nýjasta úr hans smiðju og fannst honum tilvalið að gera annað lag með bræðrunum eftir velgengni Sumargleðinnar. „Nú er sumarið komið og bjartari tímar framundan, þannig okkur fannst fullkomið að gefa út eitt hresst lag til að gíra fólk í gang.“

Lagið Gírinn má finna á Spotify og öllum öðrum helstu streymisveitum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.