Menning

„Okkur er einfaldlega hent út með skít og skömm“

Jakob Bjarnar skrifar
Mótettukórinn ásamt stjórnanda sínum Herði Áskelssyni. Mikil reiði er meðal kórfélaga; þeir telja þetta kaldar kveðjur eftir alla áratugi sjálfboðaliðastarfs og söngs í þágu Hallgrímskirkju, að vera nú úthýst.
Mótettukórinn ásamt stjórnanda sínum Herði Áskelssyni. Mikil reiði er meðal kórfélaga; þeir telja þetta kaldar kveðjur eftir alla áratugi sjálfboðaliðastarfs og söngs í þágu Hallgrímskirkju, að vera nú úthýst. Mótettukórinn

Mikil reiði ríkir meðal kórfélaga og velunnara Mótettukórsins vegna þess hvernig mál hafa þróast í Hallgrímskirkju sem endaði með starfslokum Harðar Áskelssonar tónlistarstjóra kirkjunnar til fjörutíu ára.

Vísir birti í morgun viðtal og umfjöllun um þessi starfslok Harðar en ljóst er að hann er afar ósáttur við þróun mála. Og það eru kórfélagar sem hafa sungið undir stjórn Harðar einnig og hafa víða tjáð þann hug sinn.

Ragnheiður Þórdís Gylfadóttir tilkynnir í hópi Heldri Mótettukórsfélaga að kórinn muni ekki syngja fleiri messur í Hallgrímskirkju eins og hafði staðið til í maí. „Yfirvöld í kirkjunni höfðu samband og afþökkuðu frekari þjónustu.“

Kaldar kveðjur sem kórinn fær frá kirkjunni

Hljóðið er þungt í hópnum en Ragnheiður Þórdís lætur fylgja með afdráttarlausan pistil sem Gunnar Örn Gunnarsson, einn kórfélaga, birti á Facebook-síðu sinni.

„Kæru vinir. Í kvöld var síðasta kóræfing Mótettukórsins í Hallgrímskirkju. Eftir að hafa þjónað kirkjunni í nær 40 ár og þar af hef ég verið viðloðandi kórinn síðan 1988 eða í 33 ár, þá hafa yfirvöld kirkjunnar ákveðið að reka okkur. Ekki var óskað eftir okkar þjónustu út mánuðinn eins og áður var búið að ákveða. Það eru kaldar kveðjur sem kórarnir fá ásamt Herði og Ingu Rós frá kirkjunni,“ segir Gunnar Örn.

Kæru vinir. Í kvöld var síðasta kóræfin Mótettukórsins í Hallgrímskirkju. Eftir að hafa þjónað kirkjunni í nær 40 ár og...

Posted by Gunnar Örn Gunnarsson on Þriðjudagur, 4. maí 2021

Megi presturinn og formaður safnaðarins eiga við ævarandi skömm

Gunnar Örn greinir frá því að eftir að hafa fylgst með framkomu yfirvalda í Hallgrímskirkju síðustu þrjú árin þá komi honum ekki á óvart hver staðan sé. Og rímar það við sýn Harðar í viðtalinu við Vísi. Að það hafi verið stefnt að þessu leynt og ljóst.

„Það var örugglega ekki ætlunin að kórarnir færu og við höfum hins vegar gert þeim það ljóst að ef það yrði niðurstaðan að þau hjónin færu þá færum við. Og nú er komið að því.

Þrátt fyrir að hafa þjónað kirkjunni með söng bæði á tónleikum og í messum öll þessi ár þá eru þetta þakkirnar. 

Okkur er einfaldlega hent út með skít og skömm, ekki gefin [kostur] á að kveðja söfnuðinn. Megi formaður safnaðarins, prestur og aðrir þeir sem standa að þessum gjörningi eiga við ævarandi skömm,“ skrifar Gunnar Örn og víst að hann talar fyrir hönd margra kórfélaga.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.