Dregið var fyrr í dag þegar 2500 skammtar af Pfizer voru eftir. Þá komu konur fæddar 1982 og karlar fæddir 1999 upp úr pottinum. Greinilegt er að ekki hafa nógu margir skilað sér eftir boðunina með SMS-um í dag. Því á að draga aftur og senda skilaboð á fleiri.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, sér um að draga næstu árganga sem mega eiga von á boði í bólusetningu á eftir.
Uppfært: Strákar 1987 og stelpur 1996 voru dregin úr pottinum í Laugardalshöll. Fólk á höfuðborgarsvæðinu í þessum árgöngum má eiga von á SMS-skilaboðum og þarf að mæta beint í Laugardalshöll.
Athygli er vakin á því að fólk í þessum árgöngum sem ekki kemst í bólusetningu í dag fær að mæta með sínum árgangi þegar kemur að honum síðar.