Vala Matt fór í leiðangur út í sveit til þess að skoða gler kúluhús sem stendur við stórglæsilegan sumarbústað sem byggingarmeistarinn Ingvar Geirsson og kona hans listakonan Gyða Einarsdóttir hafa komið sér upp. Glerkúlan er á pallinum við bústaðinn og nýtist alveg ótrúlega vel eins og sjá má í þessu innliti í þættinum Ísland í dag.
„Það er bara skemmtilegt og gaman frá því að segja að við notum þetta rosalega mikið. Það eru margar og skemmtilegar gæðastundir sem að við eigum í þessu glerkúluhúsi. Hérna borðum við stundum og erum með fjölskylduna líka,“ segir Gyða.
Í notkun allan ársins hring
Glerkúluhúsið má opna að vild þannig að það nýtist einnig sem skjólveggur til sólbaða og útiveru. En Gyða hefur einnig iðulega haldið matarboð í húsinu í öllum veðrum. Þau nota svo rafmagnshitara og teppi þegar á þarf að halda.
„Þetta er rosalega sniðugt, að nota húsið líka yfir vetrartímann. Síðan á góðum kvöldum, að sitja hérna og horfa á sólina setjast, þetta er alveg dásamlegt.“
Þau hafa einnig sett upp úti sauna og mjög sérstaka útisturtu ásamt bæði köldum og heitum potti. Ingvar smíðaði sjálfur allt í kringum bústaðinn. Sturtuklefann og kalda karið klæddi Ingvar með girðingarstaurum.
„Þetta er svona okkar fjölskyldulón,“ segir Ingvar um aðstöðuna fyrir utan bústaðinn.
Arkitektúr sumarbústaðarins er alveg einstakur og skoðaði Vala þar bæði efnisval og innréttingar í innlitinu.
„Ég var búinn að hugsa um að byggja sumarbústað í mörg ár og svo þegar stundin kom þá var maður tilbúinn í þetta, segir Ingvar. Hann var sjálfur byggingarstjóri verkefnisins en fékk með sér arkitekta til þess að teikna draumabústaðinn.“
Innlit Völu Matt til Ingvars og Gyðu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.