Lífið

Langaði í leiklist en fékk sig ekki til að opna dyrnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ólafur Þór Jóelsson hefur frætt landsmenn um tölvuleiki í meira en tvo áratugi.
Ólafur Þór Jóelsson hefur frætt landsmenn um tölvuleiki í meira en tvo áratugi. Snæbjörn talar við fólk

Ólafur Þór Jóelsson er tölvuleikjanörd að atvinnu. Hann hefur verið þáttastjórnandi GameTíví frá því hann hóf göngu sína og nýtur þess enn í dag að spila tölvuleiki með vinum sínum, nú orðinn um fimmtugur.

Á sínum yngri árum lét Ólafur sig dreyma um að verða leikari eða uppistandari en lét aldrei verða af því að taka stökkið af alvöru. Í dag er hann þó nokkuð viss um að draumurinn hafi alltaf verið sá að geta glatt fólk og sent það frá sér brosandi út í daginn.

Ólafur nýtur þess að bæta sjálfan sig, var virkur í Dale Carnagie þar sem hann lærði margt sem hjálpað hefur honum í gegnum lífið og telur að hann hafi val um að vera hamingjusamur. Til þess þurfi að slökkva á fullkomnunarsinnanum og vera bara ánægður með að vera bara með sex í öllu. Þessari innsýn á lífið og heilmiklu um tölvuleiki deilir Ólafur í nýjasta þættinum af Snæbjörn talar við fólk.

Förum og felum líkið

Ólaf langaði alltaf að prófa að verða leikari, og langaði alltaf frekar að vera á sviðinu þegar hann fór í leikhús. Eitt sinn þegar hann var nemandi í Verzlunarskóla Íslands ætlaði hann sér að mæta á fund nemendaleikfélagsins, en þegar á hólminn var komið fékk hann sjálfan sig ekki til að opna dyrnar að fundarherberginu, sneri heldur við og fór aftur heim. Í dag svalar hann leikþorstanum í gegnum GameTíví.

Þessi reynsla af því að gugna á að gera eitthvað sem hann langaði virkilega að gera kenndi Ólafi að ráðfæra sig við gott fólk í kringum sig – og þá ekki bara já-fólkið sitt.

„Mér fannst það oft þannig gott að tala við einhvern sem þekkir mig lítið, er ekki með mér í liði og bara getur sagt hlutina eins og þeir eru. [...] til dæmis eins og með foreldra mína, þegar ég er að ganga í gegnum eitthvað. [...] Ef að ég talaði við mömmu [...] hún hefði bara: „mamma, ég drap mann.“ [mamma svarar] „Jæja, förum og felum líkið.“ [...] og hún hefði bara alltaf séð mig í fyrsta sæti. [...] En síðan hef ég verið í öðrum vandamálum og talað við pabba, af því að hann var meira kannski – sagði hlutina eins og þeir voru og eru. Þá er þetta svolítið að maður verður að velja sér líka. Maður getur verið að velja sér alltaf að fara að tala við klappstýruna. „Heyrðu, er ég ekki bara góður?“ Það er alltaf til fullt af fólki sem segir bara „jú, þú ert geggjaður!“ En hvar ætlarðu að spegla þig?“

Meira en tuttugu ár

Eftir að hafa lært af reynslunni í Verzló steig Ólafur það skref að skrá sig í áhugaleikfélagið Hugleik þar sem hann tók þátt í nokkrum uppfærslum, þar á meðal verkinu Sálir Jónanna sem fór í leikferðalag út fyrir landssteinana.

Ólafur keypti tölvuleikjaverslun í Kringlunni sem ungur maður ásamt vini sem á endanum fór á hausinn. Eftir það ævintýri fékk hann starf hjá Senu við að vinna með tölvuleiki og hefur unnið hjá þeim alla tíð síðan.

Stundum hefur Ólafur tekið að sér verkefni sem uppistandari. Enn þann dag í dag tekur hann við slíkum verkefnum, veislustjórn og uppistandi, meðfram sinni reglulegu vinnu.

Í klippunni hér fyrir neðan má heyra söguna af því þegar Ólafur kynnti hugmynd um tölvuleikjasjónvarpsþætti til Popptíví sem hafði áður verið með stiklur úr tölvuleikjum til sýnis. Þar hóf þátturinn GameTíví göngu sína þar sem Ólafur og Sverrir Bergmann kynntu tölvuleiki fyrir landsmönnum.

„Þetta eru orðin yfir tuttugu ár sem þátturinn hefur verið til í einhverri mynd. Yfirleitt vorum við ekki einu sinni að taka okkur frí.“

Klippa: Snæbjörn talar við fólk - Ólafur Þór Jóelsson

Beint á eftir barnaefninu

Sökum þess að þættirnir voru sýndir á þeim tíma sólarhrings sem börn höfðu aðgang að sjónvarpstækjum var þónokkuð um kvartanir yfir þættinum og fór að lokum svo að þátturinn færði sig yfir á Skjá Einn þar sem mikið var lagt í þættina. Í dag hefur þátturinn þróast yfir í það sem kallað er „Let's Play“ þar sem áhorfendur fylgjast með þáttastjórnendum spila leiki og deila reynslu sinni.

Sem tölvuleikjaspekúlant reynir Ólafur að vera opinn fyrir sem flestum gerðum leikja. Þó eru auðvitað sumir leikir sem höfða frekar til hans en aðrir, og þá virðast sandkassaleikir [e. sandbox games] sem byggjast á opnu leikjasvæði og miklu frelsi henta Ólafi einstaklega illa.

„Það er þetta eina sem ég nenni ekki að spila, þegar þetta er orðið of flókið. Og ég er að spila stundum með strákunum í GameTíví og þeir eru svo mikið inni í leikjum eins og 7 Days to Die, þar sem þú þarft að byggja eitthvað upp [...] svipað eins og Minecraft. [Það] kemur einhver zombie og gerir árás á allt og það þarf að fara að búa til eitthvað; finna tréð til að búa til girðingu og múrstein og – þetta er eitthvað algjört vesen! Og ég skil ekkert í þessu! Það eru svona 50 inventory slot og ég veit ekkert hvað þeir eru að gera! Og ég er bara vafrandi um tínandi túnfífla sem gera ekki neitt gagn, það er ekki einu sinni hægt að borða þá! Þarna er ég bara lost.“

Velur að vera hamingjusamur

Ólafur var lengi vel að þjálfa ungmenni í Dale Carnagie. Þar getur hver komið inn með sínar eigin áskoranir í lífinu og hjálpar þjálfarinn þeim að takast á við þær. Sjálfur lærði Ólafur margt af sínum tíma í Dale Carnagie og slær á fordóma Snæbjörns – enda hafi hugmyndafræðin breyst mikið síðan Dale Carnagie kom fyrst til Íslands. Samtökin reyni að hjálpa fólki að bæta líðan sína og stöðu, auk þess að vísa fólki á réttan stað ef samtökin geta ekki veitt aðstoð sem hentar einstaklingunum.

Ólafur Þór Jóelsson og Sverrir Bergmann.

Snæbjörn spyr Ólaf hvort hann sé virkilega bara svona hress og jákvæður eins og hann kemur honum fyrir sjónir.

„Já, mig langar að vera [jákvæður]. Og ekki bara langar að vera það, ég er það bara. Ég ætla bara að segja það, ég er það bara. Og ég vakna yfirleitt bara mjög ánægður með daginn. Ég vakna ekki eins og doktor Phil; „jæja, Ólafur, nú þarft þú að passa að endurtaka ekki mistök gærdagsins og passa að verða betri útgáfa – “ Ég bara er ekki þar. Ég bara vakna á morgnana eins og ég er, bara ríf mig á fætur og fæ mér þrjá kaffibolla og svo í vinnuna. [...] Ég er rosa ánægður! Ég er ánægður með vinnuna mína og hlutskipti mitt í lífinu, án þess að vera eitthvað að ofhugsa það. Svo fer ég bara í gegnum daginn með bros á vör. [...] Maður hefur bara val um að verða bara nokkuð hamingjusamur.“

Í dag er Ólafur að sjá um að selja fyrirtækjum skemmtipakka fyrir starfsmenn í samstarfi við Smárabíó. Skemmtisvæðið í Smáralindinni er undir hans yfirsýn og þar fær Ólafur nýjar áskoranir og tækifæri til að bregða sér í hin ýmsu gervi. Þegar hann horfir til baka hugsar Ólafur að hann hafi langað til að verða leikari eða uppistandari þegar hann var yngri til þess að geta látið fólki líða vel. Í sinni vinnu í dag nær hann að uppfylla þá þörf þar sem hann skemmtir öðrum með að spila leiki á Twitch eða með að peppa fólk upp áður en það spilar Lazer Tag. Takmarkinu er náð þegar fólk fer frá honum með bros á vör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.