Eriksen fór í hjartastopp seint í síðari hálfleik í leik Dana við Finna á Parken síðasta laugardag. Hjartanu var komið aftur af stað á vellinum og fór hann í kjölfarið beinustu leið á Rigsspítalann í Kaupmannahöfn til rannsókna.
Blessunarlega hefur hann verið í stöðugu ástandi síðan. Bjargráður var græddur í Eriksen í gær og þykir ástand hans í dag nægilega gott til að hann geti farið heim.
Hann yfirgaf spítalann því í dag og hitti félaga sína í landsliðinu á æfingasvæði þeirra í Helsingör áður en hann hélt heim.
„Þakka ykkur fyrir gríðarlegan fjölda góðra kveðja - það hefur verið ótrúlegt að sjá og finna. Aðgerðin gekk vel, og ég hef það gott miðað við aðstæður. Það var virkilega gott að hitta strákana aftur eftir frábæran leik í gærkvöldi. Það segir sig sjálft að ég mun hvetja þá áfram gegn Rússum á mánudag.“ er haft eftir Eriksen í tilkynningu danska knattspyrnusambandsins, DBU.
Danir eru án stiga á botni B-riðils eftir töp gegn bæði Finnum og Belgum í fyrstu tveimur leikjum sínum en sigur á Rússum í lokaleik þeirra á mánudaginn gæti fleytt þeim áfram í 16-liða úrslit.
Christian Eriksen er blevet udskrevet fra Rigshospitalet.
— DBU - En Del Af Noget Større (@DBUfodbold) June 18, 2021
Mere her #ForDanmark pic.twitter.com/ONy59nkwD4

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.