Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, en þar segir að umrætt skólafélag, sem ekki er nafngreint í tilkynningunni, hafði ekki fengið leyfi til skemmtunarinnar. Á Facebook hafði Skólafélag Menntaskólans við Sund í Reykjavík áður boðað til útilegu í Þrastalundi umrætt kvöld.
Lögregla segir að þegar liðið hafi verið á kvöldið hafi skemmtunin verið algerlega komin úr böndunum. Lítil ef einhver gæsla á svæðinu og hinir ýmsu aðilar búnir að gera sig heimakomna þar án þess að vera sérstaklega boðið.
„Um tíma var öll vaktin á Selfossi bundin yfir þessari skemmtun en skipuleggjendur skemmtunarinnar gerðu sitt besta til að koma skikki á sitt fólk en á endanum voru flestir tjaldgestir flúnir undan leiðindum tiltölulega fámenns hóps gesta á svæðinu.
Einhverjar líkamsmeiðingar urðu og mál til rannsóknar vegna þess. Einn gestanna gisti fangageymslur fram til morguns en hann reyndist stjórnlaus á vettvangi,“ segir í tilkynningunni.
Í sömu tilkynningu getur Lögreglan á Suðurlandi þess að Skólafélag Menntaskólans á Laugavatni hafi verið með sína árlegu útilegu á tjaldsvæðinu við Faxa á föstudagskvöld. Þar hafi gæsla verið til fyrirmyndar og ekki vitað annað en að skemmtunin hafi farið vel fram.