„Ég myndi mun frekar vilja verja tíma mínum í hönnun og verkfræði,“ sagði Musk í upphafi réttarhalda sem nú fara fram og hann er aðili að. Hann hefur verið sakaður um að þrýsta á stjórnarmenn í Tesla, fyrirtæki sínu, til þess að kaupa sólarrafhlöðufyrirtæki á 2,6 milljarða dollara, meira en 320 milljarða íslenskra króna.
Þegar viðskiptin áttu sér stað átti Musk 22 prósenta hlut í Tesla og nánast jafn hátt hlutfall í umræddu sólarorkufyrirtæki, SolarCity, sem einhverjir úr hluthafahópi Tesla hafa haldið fram að hafi verið á barmi gjaldþrots. Fyrirtækið var stofnað af frændum Musk.
Sjálfur kveðst Musk ekki hafa hagnast á gjörningnum og neitar því að hafa beitt stjórnarmeðlimi Tesla þrýstingi til þess að fá viðskiptin í gegn. Samningurinn hafi einfaldlega verið liður í áætlun hans um að búa til ódýr farartæki, knúin af grænni orku.
Engu að síður hefur hópur hluthafa farið fram á að Musk endurgreiði Tesla persónulega þá 2,6 milljarða sem fyrirtækið reiddi fram fyrir SolarPanels. Ef sú yrði niðurstaða dómsins yrði það ein hæsta upphæð sem einstaklingi hefur verið gert að greiða í dómsmáli, samkvæmt breska ríkisútvarpinu. Musk er metinn á 168 milljarða bandaríkjadollara, eða yfir 27 þúsund milljarða íslenskra króna.