Kína hefur leitt keppni þjóða um flest gullverðlaun frá upphafi leikanna en það breyttist á lokadeginum í dag. Bandaríkin fögnuðu sigri í omnium hjólreiðum kvenna, körfubolta kvenna og blaki kvenna og hlutu því þrenn gullverðlaun á lokadegi.
Kínverjar hlutu engin gullverðlaun og fóru Bandaríkin naumlega upp fyrir Kína í verðlaunakeppninni. Bandaríkin fengu 39 gull gegn 38 gullverðlaunum Kínverja. Heimamenn í Japan hlutu 27 gull, Bretland 22 og Rússland 20 gull.
Bandaríkin hlutu langflest verðlaun í heildina, alls 113 gull, silfur eða bronsverðlaun. Kína var næst með 88 verðlaun.
Noregur hlaut flest gull af Norðurlandaþjóðunum, fjögur talsins, en Norðmenn fengu alls átta verðlaun á leikunum. Danmörk fékk flest verðlaun Norðurlandaþjóðanna, ellefu alls, þar af þrjú gull. Svíþjóð hlaut níu verðlaun, þrjú gull og sex silfur, en Finnland fékk alls tvö bronsverðlaun.