Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, átti að fara með hlutverk Danny Zuko, sem John Travolta túlkaði svo eftirminnilega í kvikmyndinni. Nú hefur það hins vegar verið tilkynnt að Ingó muni ekki fara með hlutverk í sýningunni. Björgvin segir að ákvörðunin hafi verið tekin sameiginlega.
Tilkynnt verður á næstu vikum hver mun fara með hlutverkið í hans stað, en samkvæmt fréttatilkynningu er sá söngvari ekki af verri endanum.
Til stóð að tónleikasýning Grease færi fram í Laugardalshöll þann 23. október næstkomandi en ákveðið hefur verið að færa hana. Sýningin mun þess í stað fara fram laugardagskvöldið 30. apríl á næsta ári.
Í tilkynningu frá Nordic Live Event, sem er fyrirtækið sem stendur fyrir sýningunni, kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir vegna Covid-19.
„Allir sem að sýningunni koma eru orðnir mjög óþreyjufullir að stíga á svið og færa áhorfendum stórkostlega skemmtun. Hópurinn mun nota tímann til að gera tónleikasýninguna Grease enn meira æði og við getum ekki beðið eftir 30. apríl,“ segir í tilkynningunni.
Þeim sem standa að baki sýningarinnar hvetja miðaeigendur til þess að halda miðum sínum á nýrri dagssetningu og styðja þannig við viðburðahald á Íslandi sem hefur átt undir högg að sækja síðustu mánuði.
Þeir sem keypt hafa miða stendur til boða að færa miðana sína yfir á nýja dagsetningu eða fá endurgreitt.
Söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir mun syngja hlutverk Sandy, sem er hlutverkið sem gerði Oliviu Newton-John heimsfræga. Þá munu þau Stefanía Svavarsdóttir, söngkona, og Stefán Jakobsson, söngvari, einnig fara með hlutverk í sýningunni.