United komst yfir í leiknum í Bern í gær með marki Cristianos Ronaldo á 13. mínútu. Tuttugu mínútum síðar fékk Aaron Wan-Bissaka rautt spjald fyrir brot á Christopher Martins. United átti ekki skot að marki Young Boys eftir það.
Silvan Hefti jafnaði fyrir svissneska liðið á 66. mínútu og þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Theoson Jordan Siebatcheu sigurmark heimamanna eftir mistök Jesses Lingard.
Solskjær hefur stýrt United í ellefu leikjum í Meistaradeildinni síðan hann tók við liðinu í desember 2018. Rauðu djöflarnir hafa tapað sjö af þessum leikjum.
Tölfræðingarnir á Opta bentu á þá staðreynd að þrettán prósent af öllum tapleikjum United í Meistaradeildinni frá upphafi hefðu komið undir stjórn Solskjærs þrátt fyrir að hann hafi bara stýrt liðinu í tæplega fimm prósent leikja þess í keppninni.
13% - Manchester United have lost seven of their 11 UEFA Champions League matches under Ole Gunnar Solskjær. 13% of their total defeats in the competition have come under Solskjær (7/54), despite the Norwegian only being in charge for 4.8% of their matches (11/231). Fall. pic.twitter.com/5e49OVY63B
— OptaJoe (@OptaJoe) September 14, 2021
United komst ekki upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni á síðasta tímabili. Þar reyndist tap fyrir Istanbul Basaksehir á útivelli afar dýrt.
Næsti leikur United í Meistaradeildinni er gegn Villarreal á Old Trafford 29. september. Þessi lið mættust í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili. Villarreal vann þann leik eftir maraþonvítakeppni.