Í pistli sínum, „Skammastu þín Guðni Ágústsson!“, segir Tómas, sem er einnig bæjarfulltrúi í Árborg og frambjóðandi Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, að Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins hafi „brugðið sér í það hlutverk að vera einn afkastamesti skítadreifari Framsóknarflokksins“.
Guðni, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra stundi „vel skipulagða og stigmagnandi rógsherferð“ gegn Miðflokknum og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins.
„Orðið skítadreifarar er jafnan notað um slíkt!“
Guðfaðir Sigmundar í pólitík
Guðni Ágústsson var ómyrkur í máli þegar Vísir náði af honum tali, og sagðist brugðið, en kannaðist þó við þessar ásakanir. Hann hafi fengið samskonar upphringingu úr röðum Miðflokksins.
„Að ég væri skítadreifari að hringja í Miðflokksmenn og rægjandi Sigmund Davíð, en ég er guðfaðir hans í pólitík. Studdi hann heilt og hef aldrei látið mér detta í hug, hvorki á mínum ferli, né í stuðningi við flokkinn að ráðast á menn persónulega.“
Hið sama segir hann gilda um Lilju og Ásmund. Þessar ásakanir séu byggðar á lygum.
„Þetta er ljótasti leikur sem ég hef séð í garð stjórnmálamanns sem er hættur á þingi og hefur lokið sínum ferli,“ segir Guðni og bætir við að hann hafi aldrei sagt ljótt orð um Sigmund Davíð og tali af virðingu um alla sem eru í pólitík.
„Ég á vini í öllum stjórnmálaflokkum og margir af mínum gömlu góðu flokksmönnum gengu til liðs við Miðflokkinn. Margir eru þar enn og ég ber virðingu fyrir þeim.“
„Þetta á ég ekki skilið, Tómas Ellert.“
Framsókn hafi einsett sér í kosningabaráttunni að tala ekki illa um fólk heldur ganga fram með slagorðinu „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“.