Forsvarsmenn YouTube tilkynntu í gær að rásum rússneskra ríkismiðla hefði verið lokað vegna ítrekaðra brota á skilmálum myndbandaveitunnar um falskar upplýsingar um Covid-19.
Í frétt Retuers segir að RT hafi fyrst verið meinað tímabundið að deila myndböndum á YouTube en starfsmenn miðilsins hafi reynt að nota aðrar rásir til að komast hjá banninu og því hafi rásunum verið lokað.
Sjá einnig: Tæknirisar láta undan þrýstingi Kremlverja og fjarlægja kosningaforrit
Rússar hafa lýst ákvörðun forsvarsmanna YouTube sem „upplýsingahernaði“ gegn Rússlandi. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Rússlands, sem ríkismiðillinn TASS vitnar í, segir að nauðsynlegt sé að refsa þýskum fjölmiðlum fyrir ákvörðun forsvarsmanna YouTube, sem er eins og áður segir bandarískt fyrirtæki.
Þýskir fjölmiðlar hafi skipt sér af innanríkismálefnum Rússlands og yfirvöld í Þýskalandi hafi ekki orðið við beiðni Rússa um að virða alþjóðlegar skyldur og fjölmiðla- og málfrelsi.
Í frétt Moscow Times er meðal annars haft eftir Dmitrí Peskov, talsmanni Vladimírs Pútín, forseta, að yfirvöld Rússlands hefðu enga þolinmæði gagnvart ritskoðun. Vel kæmi til greina að reyna að þvinga YouTube til að fylgja rússneskum lögum.
Yfirvöld í Rússlandi hafa undanfarna mánuði látið loka fjölmörgum sjálfstæðum fjölmiðlum í Rússlandi á grundvelli nýrra laga um öfgasamtök.
Sjá einnig: Enn fleiri sjálfstæðum fjölmiðlum lokað í Rússlandi
Utanríkisráðuneytið segir að YouTube hafi lokað áðurnefndum rásum RT, því miðillinn hafi ekki dansað eftir tóni ráðamanna í Þýskalandi.
Rússar hafa seint kröfu til YouTube og krafist þess að rásirnar verði opnaðar aftur. Annars gæti verið lokað á aðgang að YouTube í Rússlandi.
Þjóðverjar segja aðgerðir YouTube ekki koma þýskum fjölmiðlum eða Þýskalandi við.