Málið var rætt á fundi borgarráðs í dag og samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Í bókun Sjálfstæðismanna segir: „Áform um smáhýsi í Laugardal stangast á við þau sjónarmið sem hafa ríkt um að Laugardalurinn verði griðastaður útvistar og íþrótta. Ekki á að heimila íbúðabyggð með neinum hætti í Laugardalnum enda verður enn meiri þörf fyrir dalinn sem útivistar- og íþróttasvæði í framtíðinni en nú er.“
Í bókuninni segir þó mikilvægt að taka á vanda húnsæðislauss fólks en það verði að gera með „raunhæfum og góðum lausnum“.
Tímabundið úrræði
Smáhýsin eru hluti hugmyndafræði velferðarsviðs sem er kölluð „húsnæði fyrst“ og er hugsuð til að hjálpa fólki sem hefur verið heimilislaust og hefur miklar þjónustuþarfir.
„Hafa ber í huga að þó þessi hús séu tímabundin í staðsetningu sinni þá eru þau heimili fólks, ekki dvalarheimili eða lokuð stofnun, og þurfa að vera nálægt þeirri þjónustu og samfélagsinnviðum sem borgarbúar þurfa að nýta. Ekki er auðvelt ná sátt um staðsetningu þeirra í íbúðabyggð eða blandaðri byggð og því þarf að leita á staði sem eru í námunda við sömu innviði á öðrum skipulagssvæðum,“ segir í bókun meirihlutans.
Laugardalurinn sé opið svæði og samkvæmt gildandi aðalskipulagi megi koma búsetuúræðum fyrir á slíku svæði. Þó beri að hafa í huga að þau séu víkjandi og hafi ekki áhrif á langtímanotkunarmöguleika svæðisins.
„Fulltrúar meirihlutans telja að nálægð við útivistarsvæði, almenningssamgöngur og samfélagsinnviði muni hafa jákvæð áhrif á þau sem þar munu koma til með að búa og vona að hverfið taki vel á móti þeim,“ segir í bókun fulltrúa meirihlutans; Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Píratar og Vinstri grænna.