Þetta kemur fram í svari lögreglunnar á Vesturlandi við fyrirspurnum undirbúningsjkörbréfanefndar Alþingis sem birt hefur verið á Alþingisvefnum. Í skýrslunni tekur lögreglan fram að hún geti ekki fullyrt út frá upptökum úr öryggismyndavélum hvort átt hafi verið við gögnin.
Rannsókn lögreglu á upptökunum leiddi í ljós að á því tímabili sem yfirkjörstjórn var fjarverandi gekk starfsfólk hótelsins um salinn. Samkvæmt skýrslunni virðist starfsfólkið, af upptökunum að dæma, hafa verið að vinna við ýmis tiltektar- og frágangsverk í salnum.
Vegna sjónarhorns myndavélanna sést þó ekki það svæði sem kjörgögnin voru geymd. Þá fór starfsfólkið stundum úr rammanum, frá nokkrum sekúndum upp í tvær og hálfa mínútu. Á upptökunum sést ekki að aðrir en starfsmenn hótelsins hafi gengið um salinn á þeim tíma sem yfirkjörstjórn var fjarverandi.
Vegna þess að kjörgögnin sáust ekki á upptökunum voru teknar vitnaskýrslur af starfsfólki hótelsins sem segist aldrei hafa átt við kjörgögnin.
Þá ræddi lögregla við fjóra yfirkjörstjórnarmenn sem öllum þótti ólíklegt að nokkur hafi átt við kjörgögnin áður en yfirkjörstjórn kom aftur á talningastað.