Í viðtalinu á RÚV sagðist Þórir hafa verið rekinn úr starfi og ekki hafa fengið fasta vinnu í fjögur ár, síðan hann var sakaður um að hafa sent myndir af kynfærum sínum til 15 ára stúlku. Var yfirlýstur tilgangur viðtalsins að ræða hvernig fólk sem brýtur af sér gæti snúið aftur í samfélagið.
Jófríður, steig fram á Twitter í gær og sagði að Þórir hafi vitað hvað hún var gömul á þeim tíma.
Ég var 16 ára og hann 36 ára, hann notfærði sér það. Hann vissi hvað ég var gömul. Hann reyndi að followa mig á insta um daginn mörgum árum seinna, ældi næstum upp í mig. Fer svo að grenja í viðtali og lætur eins og kjáni og fórnarlamb. Dreptu mig ekki #kveikur
— jófí 🥦 (@jofiskafta) November 2, 2021
Hún segir Stundinni að viðtalið á RÚV hafi vakið með henni reiði „því ég veit ekki til að þessi maður hafi beðið þær sem hann er sakaður um að hafa komið illa fram við, afsökunar“.
Jófríður segir jafnframt að viðtalið og viðbrögð margra við því, þar sem fólk samhryggist honum, ýti undir gerendameðvirkni og geri lítið úr þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða öðru kynbundnu ofbeldi.
„Þetta viðtal og viðbrögð margra við því er hlandblaut tuska í andlitið á þolendum.“
„Ég er orðin langþreytt á því hvernig umræða um kynferðisbrot er hér á landi. Gerendum er hampað og þolendur eru skrímslavæddir. Þolendur eru sakaðir um að eyðileggja líf og frama gerenda sinna með því að stíga fram, meðan þeir sjá alveg um það sjálfir með sínum gjörðum og algjörum skorti á iðrun,“ segir Jófríður við Stundina.
Jófríður rifjar upp kynni sín við Þóri. Þau hafi kynnst á Tinder þar sem hún var skráð 18 ára, en hún hafi tjáð honum þegar þau hittust að hún væri í raun 16 ára. Hann hafi ekki sett það fyrir sig og þau sofið saman.
„Það var ekki þvingað samræði, en ég var svo ung og brotin að strax daginn eftir lokaði ég á öll samskipti við hann og reyndi að gleyma því sem hafði gerst. Mér leið mjög illa en kunni ekki að orða það sem ég veit í dag að var valdamismunun. Hann var ekki bara helmingi eldri en ég, og ég unglingur, heldur var hann líka frægur leikari.“
Hún hafi verið ringluð og brotin á þessum tíma og þessi reynsla hafi tekið verulega á hana á sínum tíma, en hún hafi unnið út því á þeim sjö árum sem liðin eru.