Lífið

Kaffi og grobb­sögur það besta við Himna­ríki

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Það er allur gangur á því hve­nær og auð­vitað hvort menn komast til himna­ríkis, ef þeir á annað borð trúa á slíkt fyrir­bæri. En á Siglu­firði er að finna Himna­ríki, sem er ó­neitan­lega raun­veru­legt og það er opið hverjum þeim sem vill kíkja við í kaffi, laga bílinn sinn eða hrein­lega spjalla um þjóð­málin.

Og yfir þessu Himna­ríki ríkir enginn guð, heldur hann Guðni, fyrr­verandi lögga í bænum sem varð að láta af störfum eftir vinnu­slys.

„Eftir það fór ég að leita mér að ein­hverju bara við að vera. Gekk illa að fá vinnu á al­mennum markaði, menn eru ekkert æstir í að ráða gamla kalla, ör­yrkja, í al­menna vinnu. Þannig að ég á­kvað bara að búa mér hana til sjálfur og búa mér til stað sjálfur til að vera á og á eftir mér kom alveg hala­rófa af mönnum í svipaðri stöðu,“ segir Guðni Sveins­son, fyrr­verandi lög­reglu­maður.

Henda lærum og sviðakjömmum í Guðna

Hjá Guðna í Himna­ríki er ýmis­legt hægt að gera.

„Fyrst og fremst drekka kaffi, segja grobb­sögur og tala um bíla og veðrið. Og spekúlera í stjórn­málum og þjóð­málum bara al­mennt,“ segir Guðni.

Guðni býður mönnum einnig upp á bæði að­stöðu og að­stoð við bíla­við­gerðir og það endur­gjalds­laust. Þeir verða að­eins að greiða fyrir þá hluti sem þarf að kaupa til við­gerðanna, varaparta, lakk og slíkt, og auð­vitað að mæta með góða skapið.

„En þeir koma í staðinn með kaffi­pakka, henda í mig læri eða ein­hverjum sviða­kjamma eða eitt­hvað skilurðu, en eins og ég segi; þetta á bara að vera skemmti­legt.“

Hundurinn Guðna, eins og Siglfirðingar gætu margir hverjir komist að orði, fær oft að fylgja honum niður á verkstæði.vísir/óttar

Staðurinn ber nafn með rentu

Þar er sér­stakt á­huga­mál Guðna að taka við gömlum Suzuki bílum og gera þá að frá­bærum fjalla­jeppum, sem komast allan fjandann, eins og Guðni kemst að orði. Þeir eru nefni­lega þannig gerðir að það er auð­velt að breyta þeim og svo eru þeir svo léttir að þeir fljóta gjarnan ofan á snjó í færð sem þyngri jeppar komast alls ekki.

„Í mínum huga er þetta þá bara Himna­ríki, fyrir mann sem hefur gaman að bílum og gaman að gömlu dóti og hefur gaman af að bjarga gömlu dóti og gera upp gamla bíla, að þá finnst mér þessi staður bera þetta nafn með rentu og réttu,“ segir Guðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.