Aðeins þriðjungur svarenda í nýjum þjóðarpúls Gallup sagðist bera mikið traust til Þjóðkirkjunnar en rúmlega þriðjungur lítið traust. Þá sögðust aðeins fimmtán prósent ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur biskups en 27 prósent óánægð.
Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal og staðgengill biskups, sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að lykillinn að þessari slæmu útkomu væri að fólk þekki ekki það mikla starf sem væri unnið í söfnuðum landsins.
Sagði hún enga gagnrýni heyrast frá fólki sem hafi virkilega verið í tengslum við þjóðkirkjuna og hafi þurft að leita til hennar, meðal annars um sálgæslu presta eða athafnir.
Benti hún einnig á að frá hruni hafi traust almennings á opinberum stofunum hríðlækkað. Sagðist Solveig Lára telja þörf á dýpri könnun þar sem traust til stofnana væri kannað almennt en einnig sérstaklega á meðal fólks sem tekur þátt í starfi kirkjunnar.
Ungt fólk veit ekki af þjónustu kirkjunnar
Spurð að því hvers vegna fólk leitaði ekki til Þjóðkirkjunnar til að svala andlegri þörf sagði Solveig Lára að kirkjan byði upp á alls kyns þjónustu til að svara þeirri þörf.
„Ef við horfum á síðustu tuttugu árin hefur náttúrulega heil kynslóð vaxið úr grasi sem hefur ekki lært til dæmis neinar biblíusögur eða fengið neina kristindómsfræðslu og þá kannski veit ungt fólk ekki að kirkjan er að bjóða upp á þetta og fylla upp í þessa andlegu þörf sem þau eru að leita eftir,“ sagði vígslubiskup.
Gekk hún lengra og tengdi þetta við geðheilsu ungs fólks.
„Aukinn kvíði hjá ungu fólki og svona, við verðum að skoða þetta allt í samhengi,“ sagði Solveig Lára.