Lífið

Segja Måneskin herma eftir sér: „Verið frum­legri“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hljómsveitarmeðlimir I Cugini di Campagna eru síður en svo sáttir með búningaval Måneskin á tónleikum Rolling Stones í Las Vegas á laugardag.
Hljómsveitarmeðlimir I Cugini di Campagna eru síður en svo sáttir með búningaval Måneskin á tónleikum Rolling Stones í Las Vegas á laugardag. Instagram/I Cuginni di Campagna

Ítölsk glampopp hljómsveit, sem var stofnuð á áttunda áratugi síðustu aldar, hefur sakað hljómsveitina Måneskin um að herma eftir búningum hennar. Sveitin gagnrýnir að nýliðarnir hafi klæðst glimmerbúningum sem sýndu Bandaríska fánann þegar þeir opnuðu fyrir Rolling Stones á tónleikum í Las Vegas.

Ivano Michetti, gítarleikari ítölsku sveitarinnar I Cugini di Campagna, sagði Måneskin nýta sér áttunda áratugs tískuna til að fá athygli og hvatti hljómsveitina til að vera frumlegri.

Måneskin, eins og margir muna líklegast eftir, sigraði Eurovision söngvakeppnina í Rotterdam í maí fyrir hönd Ítalíu og hefur síðan þá notið mikilla vinsælda. Sveitin er nú á ferðalagi um Bandaríkin og hitaði upp fyrir Rolling Stones á tónleikum þeirra í Las Vegas á laugardag. 

Greinilegt er að rokkgoðsögnin Mick Jagger var hæstánægður með frammistöðu Måneskin en hann tísti að loknum tónleikum: Frábært kvöld í Vegas með Måneskin. 

Michetti var hins vegar síður en svo sáttur með hljómsveitina og sagðist ekki hafa getað slakað á eftir að honum var bent á búninga meðlima Måneskin. 

„Ég fór og skoðaði hvað væri eiginlega í gangi og komst að því að meðlimir Måneskin voru klæddir eins og við á áttunda áratugnum,“ sagði Michetti í samtali við La Stampa. 

Hljómsveitin I Cugini di Campagna, sem er enn starfandi, deildi mynd á Instagram þar sem Nick Luciani, söngvari sveitarinnar, er klæddur í glimmerbúning með stjörnum og röndum badnaríska fánans og svo mynd til hliðar af Damiano David, söngvara Måneskin, í svipuðum búningi. 

„Måneskin hitaði upp í Bandaríkjunum fyrir Rolling Stones og HERMDU eftir fötum I Cugini di Campagna,“ skrifaði sveitin við myndina sem hún deildi á Instagram. „HÆTTIÐ AÐ HERMA EFTIR FÖTUNUM OKKAR.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.