Greint er frá þessu í tilkynningu en Jóhanna er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands og fyrsta opinberlega samkynhneigða konan sem gegnir embættinu á heimsvísu.
Jóhanna var forsætisráðherra Íslands á árunum 2009 til 2013 og formaður Samfylkingarinnar frá 2009 til 2012. Hún sat á Alþingi í 35 ár frá árinu 1978 til 2013 og var félagsmálaráðherra árin 1987 til 1994 og 2007 til 2009. Árið 2009 valdi Forbes hana á lista yfir 100 valdamestu konur heims.

Leitt til viðhorfsbreytingar
Silvana Koch-Mehrin, forseti og stofnandi Women Political Leaders (WPL), segir að Ísland sé fyrirmynd annarra þjóða þegar komi að þjóðarleiðtogum.
„Í mörg ár hefur Ísland verið leiðandi á heimsvísu í Global Gender Gap Report, skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, og er það að hluta til að þakka brautryðjendum eins og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.“
Koch-Mehrin bætir við að Jóhanna hafi, líkt og allir viðtakendur brautryðjendaverðlaunanna, haft áhrif á viðhorf fólks til kvenleiðtoga og opnað dyr fyrir þær sem á eftir koma.
Jóhanna bætist í hóp á annan tug kvenleiðtoga sem hafa hlotið viðurkenningu frá upphafi WPL Trailblazer verðlaunanna árið 2017.
Verðlaunin hafa meðal annars fallið í skaut Mary Robinsson, fyrrverandi forseta Írlands, Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Laura Chinchilla Miranda, fyrrverandi forseta Kosta Ríka, Julia Gillard, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands, Saara Kuugongelwa-Amadhila, forsætisráðherra Namibíu, og Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og verndara Heimsþings kvenleiðtoga.