Bæjarstjórinn, Marco Giorgianni, segir svæðið sem rýma þurfi, innihaldi mikið magn brennisteinslofttegunda, sem geti verið skaðlegt heilsu fólks. Svæðið sem rýmt hefur verið er í námunda við höfn eyjarinnar.
„Gögn sýna aukningu á lofttegundum sem valda miklum áhyggjum, enda geti lofttegundirnar verið skaðlegar fólki,“ sagði bæjarstjórinn í beinu vefstreymi á Facebook í gær. Samkvæmt yfirvöldum þar í landi hefur verið mikil aukning á gastegundum sem minnka súrefnismettun lofts, og geta þannig leitt til alvarlegra heilsufarsafleiðinga.
Eldfjall eyjarinnar hefur ekki gosið í meira en 130 ár, en óvíst er hvort von sé á gosi. Rómverjar trúðu því að eyjan smáa væri í raun strompur eldguðsins Vulcan. Yfirvöld á eyjunni fylgjast grannt með stöðu mála. Þetta kemur fram í grein Guardian.
