Frostið var fjórar gráður þegar Áslaug Arna tók þessari áskorun en hún var í tökum fyrir þátt á Stöð 2 ásamt Alex Michael Green Svanssyni, betur þekktur sem Alex from Iceland.
Á Instagram síðu Alex má sjá Áslaugu byrja á að hoppa fram af bryggju í Reykjavíkurhöfn. Svo hoppaði hún af skipinu Tý og út í sjóinn. Enduðu þau svo á að taka þetta skrefinu lengra og hoppa fram af fossi út í jökulkalt vatnið.
„Stökk fram af fossi í dag í erfiðum aðstæðum og miklum kulda. Kynntist klettastökki með algjörum fagmönnum,“ skrifaði Áslaug Arna á Instagram.
„Það er oft gott að finna hugrekkið sitt í nýjum aðstæðum.“
„Savage“ skrifaði Alex um hugrekki dómsmálaráðherrans. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Davíð Goði tók af Áslaugu Örnu stökkva í gær.