Samtök atvinnulífsins leggja til aukna árangurstengingu og endurmat útgjalda ríkissjóðs og segja höfuðmáli skipta að tryggt sé að fjárveitingar skili tilætluðum árangri með markvissu endurmati útgjalda. Í umsögn þeirra kemur fram að ræða þurfi niðurstöðurnar í samhengi við fjárlagagerð, enda stuðli það að samhengi markmiðasetningar og fjárveitinga.
SA fagna því að íslensk stjórnvöld hafi nýlega hafið slíka vinnu en segja að í vinnuna þurfi stóraukinn kraft svo vel megi vera.
Talað um aðhald en minna um efndir
Samtökin gagnrýna að ítrekað sé rætt um aðhald í rekstri en þegar að er gáð sé lítið aðhald að finna í fjárlögunum. Samkvæmt útreikningum SA komi útgjöld ríkissjóðs þvert á móti til með að vaxa um 1 prósent á föstu verðlagi á milli ára þótt litið sé fram hjá niðurfelldum sértækum aðgerðum vegna faraldursins. Áhrifin séu enn meiri þegar horft er fram hjá minnkandi atvinnuleysi.
![](https://www.visir.is/i/AB87AE8CE3E5450ACE03BE61C0BEAE6F65291A91744FCF6520B63EE120A283D6_713x0.jpg)
Samtökin gagnrýna að talað sé um í frumvarpinu að ekki verði stofnað til nýrra útgjalda og benda á að þvert á móti séu talin upp ýmis ný útgjöld í „samræmi við forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar.“
![](https://www.visir.is/i/564C89BF73FBE99BBB549C784DB2B125562604C3A2389CDA4C233E5D9B07A3E1_713x0.jpg)
SA rökstyðja enn fremur að eðlilegt sé að útgjöld séu í samræmi við forgangsröðun yfirvalda en samhliða þurfi að tryggja að ekki sé útgjaldaaukning á þeim sviðum sem ekki eru í forgangi.
Rammasett útgjöld aukast um 30 prósent að raunvirði á árunum 2017-2022, að mati SA. Á sama tímabili er áætlað að hagvöxtur aukist um 14 prósent.
Alltof dýrir og flóknir kjarasamningar
SA leggja enn fremur til lækkun álaga og einföldun regluverks. Styðja þurfi við atvinnulífið í orði og í verki. Ein helsta hindrun fyrirtækja í þessum efnum sé launakostnaður sem þróast hefur úr takti við verðmætasköpun. Þá muni tryggingagjaldið, sem leggst ofan á laun, hækka um áramótin.
Þau leggja til framlengingu lækkunar tryggingagjalds og að tillögum OECD til umbóta á regluverki sé fylgt eftir, til að mynda í byggingariðnaði og í ferðaþjónustu.
Í umsögninni kemur einnig fram að nauðsynlegt sé að bæta umgjörð kjarasamningagerðar til að draga megi úr þeim óþarfa samfélagskostnaði sem samningagerðinni fylgir.
Þar segir að væru kjarasamningar á Íslandi jafnmargir og á Norðurlöndum miðað við höfðatölu væru þeir á bilinu 15-30 en ekki 330 eins og nú er.
SA segja umbætur á vinnumarkaðslíkaninu til þess fallnar að stuðla að skilvirkari kjarasamningagerð, launahækkunum í takti við verðmætasköpun og heilbrigðari vinnumarkaði, öllum til hagsbóta.
![](https://www.visir.is/i/A70A6660EC853FAACC05123EF9F50D5DFC01288F586A41A2CC7449C576794C54_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.