Lífið

Missti drauma­starfið en sneri vörn í sókn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Líney missti vinnuna sem var mikið sjokk. Það var samt sem áður ákveðið gæfuspor. 
Líney missti vinnuna sem var mikið sjokk. Það var samt sem áður ákveðið gæfuspor. 

Flugfreyjan fyrrverandi Líney Sif Sandholt sneri vörn í sókn þegar henni var sagt upp flugfreyjustarfinu hjá Icelandair og ákvað að stofna hreingerningarfyrirtæki sem framleiðir náttúrulegan hreinsivökva.

Vala Matt ræddi við Líneyju í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi en hún segir það hafa verið mikið sjokk að missa vinnuna á sínum tíma.

„Það var mjög erfitt að missa vinnuna þar sem maður er með tvö lítil börn og er að reka heimili. Ég var búin að vera í fluginu síðan 2013 og þetta er svona ákveðin lífsstíll sem fylgir fluginu og þú verður svolítið háður þessu. Annað hvort fílar þú þetta eða ekki. Ég elskaði vinnuna mína í fluginu,“ segir Líney.

„Maður sá svo sem í hvað stefndi þegar heimsfaraldurinn skall á en þetta er alltaf mikið sjokk.“

Líney stofnaði fyrirtækið LS þrif sem sérhæfir sig í flutningsþrifum og þrifum á skrifstofurýmum.

„Svo fór ég að hugsa út í sprittið sem er ónáttúrulegt og óhollt fyrir okkur. Þá fann ég þetta sótthreinsivatn,“ segir Líney. 

Hún segir vöruna algjörlega náttúrulega og að búið sé að rannsaka vatnið gagnvart veiru eins og kórónuveirunni. Líney til að mynda úðar vatninu á snuð, leikföng, ávexti og jafnvel á sár.

Líney er reyndar aftur komin með starfið sem flugfreyja og lífið leikur við hana eins og staðan er í dag.

„Ég missti vinnuna sem er ömurlegt en í staðinn fann ég þetta, allt gerist af ástæðu.“

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.