Gríðarleg þörf er þar á fersku vatni en íbúar eyjanna hafa verið varaðir við því að neyta kranavatns, sem er mjög mengað eftir öskufallið. Íbúar eiga að drekka vatn í flöskum og nota andlitsgrímur til að koma í veg fyrir að fá of mikið af ösku í lungun.
Eldgosinu í gær fylgdi flóðbylgja sem skall á öllum eyjunum í Kyrrahafinu. Tonga er eyjaklasi sem samanstendur af hátt í tvö hundruð eyjum en á þeim mörgum býr enginn. Samtals búa um 105 þúsund á eyjunum.
Lítið sem ekkert samband hefur verið við íbúana frá því að flóðbylgjan skall á eyjunum í gær en einhverjir hjálparliðar hafa farið til og frá svæðisinu síðan. Enginn virðist hafa látist í hörmungunum í gær.
Því er litlar upplýsingar að fá um ástandið á svæðinu en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins lýsa þeir sem náðst hefur í á svæðinu því eins og að vera á tunglinu.
Bæði Nýja-Sjáland og Ástralía ætla í könnunarflug yfir svæðið til að meta skaðann. Talið er að hörmungarnar hafi mikil áhrif á um 80 þúsund íbúa eyjanna.
Af gervihnattamyndum að dæma má ætla að margar eyjanna hafi farið á kaf í flóðunum. Sérfræðingar segja að eldgosið í gær hafi verið það stærsta í marga áratugi á svæðinu en neðanjarðareldfjallið Hunga-Tonga-Hunga-Ha'apai er nokkuð virkt.