Karlalandsliðið vann frækinn sigur á heimamönnum í græ og hefur unnið alla þrjá leiki sína á mótinu. Stuðningshópur landsliðsins í stúkunni er litríkur og kátt á hjalla enda hafa úrslitin verið vonum framar.
Þegar sala hófst hjá Heimsferðum og Úrvali Útsýn í morgun voru 186 miðar til en vélin flýgur til Ungverjalands klukkan 11 í fyrramálið. Verðið er í kringum 100 þúsund krónur á mann en innifalið er flug báðar leiðir, ferðataska og handfarangur, íslensk fararstjórn, miði á leikinn, gisting á fjögurra stjörnu hóteli með morgunmat og svo heimflug síðdegis á föstudag.
„Ég var skíthræddur um að það myndi ekki nást en við ætlum bara að taka áhættu - þó að það sé ekki tryggð afkoma - því við viljum endilega að strákarnir fái þann stuðning sem þeir eiga skilið. Þannig við ætlum bara að keyra þetta áfram og bóka í kvöld og fram á nótt á meðan miðar eru til,“ segir Hörður Hilmarsson íþróttastjóri hjá Úrval Útsýn.
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofu Íslands, er bjartsýn og segir að salan sé í fullum gangi. Vel hafi gengið en enn eru einhverjir miðar eftir á leikinn.
„Þetta miðast ágætlega. Það eru enn þá sæti laus og við erum bara á fullu hérna fram eftir kvöldi af því að við ákváðum þetta með stuttum fyrirvara. Þannig að búðin er bara opin fram á nótt,“ segir Þórunn hress og bætir við að starfsfólk sé í keppnisskapi.