Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur nú staðfest valið á keppendum fyrir leikana sem fara fram dagana 4.-20. febrúar.
Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaskíðasambandinu (FIS) hefur Ísland fengið úthlutað kvóta fyrir einn keppanda í alpagreinum karla, einn keppanda í alpagreinum kvenna, einn keppanda í skíðagöngu kvenna og tvo keppendur í skíðagöngu karla.
Úthlutun kvóta byggir á lágmörkum og árangri íslenskra keppenda á alþjóðlegum mótum og formlegum styrkleikalistum FIS útgefnum þann 17. janúar 2022.
Keppendur Íslands í Peking:
- Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, alpagreinar kvenna – svig, stórsvig og risasvig
- Sturla Snær Snorrason, alpagreinar karla – svig og stórsvig
- Kristrún Guðnadóttir, skíðaganga kvenna – sprettganga
- Snorri Einarsson, skíðaganga karla – 15km F (frjáls aðferð), 30km skiptiganga, 50km C Mst (fjöldastart, hefðbundin aðferð), liðakeppni í sprettgöngu
- Isak Stianson Pedersen, skíðaganga karla – sprettganga og liðakeppni í sprettgöngu
Þeir Sturla Snær, Snorri og Isak voru allir á meðal keppenda á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang fyrir fjórum árum en Hólmfríður Dóra og Kristrún fara nú á sína fyrstu leika.
