Ísland náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, lenti svo fjórum mörkum undir í seinni hálfleik en náði að koma sér í 22-21 þegar örfáar mínútur voru eftir. Króatar skoruðu hins vegar síðustu tvö mörkin og unnu 23-22.
„Þetta var barátta í okkur að koma okkur til baka, og það var vel gert, en heilt yfir var þetta ekki nógu gott í dag. Það svíður,“ sagði Ómar.
Staðan í hálfleik var 12-10 Íslandi í vil.
„Við áttum helling inni í hálfleik en gerum enn verr í seinni hálfleik. Þetta var ekkert hrikalegt í fyrri hálfleik en við áttum allir 5-10 prósent inni. En svo var þetta strögl í seinni hálfleik, þar sem við vorum ekki með svör en sýndum samt baráttu með því að koma til baka og vinna okkur inn í þetta, og í þessa stöðu í lokin, en þetta gekk ekki í dag,“ sagði Ómar.
En voru menn ekki einfaldlega orðnir þreyttir, eftir mikið álag og án margra lykilmanna?
„Ég bara veit það ekki. Ég þarf að skoða þetta aftur. Það er örugglega ákvarðanatakan. Við vorum ekki nógu skarpir í því sem við viljum gera, tókum óþarfa ákvarðanir, en ég veit það svo sem ekki,“ sagði Ómar.