Svíar eiga líkt og Íslendingar enn möguleika á að komast í undanúrslitin á EM, og spila til verðlauna á mótinu. Til þess þurfa þeir þó að vinna Noreg í kvöld.
Ef að Svíar komast í undanúrslit mun leikurinn um 5. sæti skipta talsverðu máli, því þá verður það leikur um öruggan farseðil á HM á næsta ári. Það er vegna þess að á EM eru þrír farseðlar á HM í boði, en mótið er haldið í Svíþjóð og Póllandi sem eru þegar örugg um sæti á HM. Þá eru ríkjandi heimsmeistarar Danmerkur einnig öruggir um sæti.
Danmörk er komin í undanúrslit en ef að Svíþjóð kemst þangað líka myndi leikurinn um 5. sæti á EM jafnframt vera leikur um þriðja og síðasta HM-farseðilinn sem í boði er á EM.
Vegna kórónuveirufaraldursins telja Svíar ekkert vit í að þeir myndu spila um 5. sæti, tapi þeir í kvöld, þar sem að leikurinn um 5. sæti væri þá orðinn merkingarlaus.
„Við kæmum til með að biðja EHF um að sleppa þeim leik, ef til þess kæmi. Það er ekkert vit í því að ferðast til annars lands og inn í nýja „búbblu“ til að spila leik sem hefur enga þýðingu fyrir liðin,“ sagði Daniel Vandor, fjölmiðlafulltrúi sænska handknattleikssambandsins.
Svíar hafa spilað alla sína leiki til þessa í Slóvakíu en leikirnir um 5. sæti, í undanúrslitum, úrslitum og leiknum um 3. sæti fara fram í Búdapest í Ungverjalandi þar sem Ísland hefur spilað sína leiki.